UM RANNSÓKNINA
Um rannsóknina
Rannsókn á erfðum verkja á vegum Íslenskrar erfðagreiningar og samstarfslækna, hefur fengið leyfi Vísindasiðanefndar til að mæla sársaukanæmi og sársaukaþol sjálfboðaliða sem eru eldri en 18 ára sem vilja leggja rannsókninni lið.
Markmið rannsóknarinnar er að kanna erfðaþætti sem kunna að tengjast sársaukaskynjun einstaklinga og tengsl sársaukanæmis við þróun langvinnra verkja.
Nánari upplýsingar
Hægt er að nálgast nánari upplýsingar um rannsóknina hjá starfsfólki Þjónustumiðstöðvar rannsóknaverkefna í síma 520 2800 eða [email protected]. Upplýsingar um þátttöku í vísindarannsóknum almennt má finna á vefsíðu Vísindasiðanefndar, www.vsn.is.
Í persónuverndarstefnu ÍE sem er birt á heimasíðu fyrirtækisins, www.decode.is/personuverndarstefna/, er að finna lýsingu á hvernig ÍE safnar og vinnur með persónuupplýsingar auk upplýsinga um réttindi einstaklinga.
Hvað felst í þátttöku?
› Undirrita yfirlýsingu um samþykki fyrir þátttöku í rannsókninni (svörun spurningalistans) með rafrænum skilríkjum
› Svara spurningalista um sársaukanæmi sem telur 20 spurningar og tekur aðeins nokkrar mínútur að svara. Þú færð í kjölfarið niðurstöður um hvernig sársaukanæmi þitt er samanborið við sársaukanæmi rúmlega 5 þúsund Íslendinga af sama kyni og á sama aldri og þú.
› Rannsakendur vilja einnig bjóða áhugasömum þátttakendum að kynnast sársaukanæmi sínu betur með því að taka þátt í sársaukaþolsmælingum sem framkvæmdar eru í Þjónustumiðstöð rannsóknarverkefna (ÞR), í Turninum, Smáratorgi 3, 201 Kópavogi, 4. hæð. Mælingarnar taka einungis 10 mínútur en heimsóknin í heild um 20-30 mín, þar sem þátttakendur eru einnig beðnir um að skrifa undir upplýst samþykki fyrir þátttöku í rannsókn á erfðum verkja og gefa blóð til erfðagreiningar og mælinga á ýmsum blóðgildum sem varða verki.
› Þátttakendur sem kjósa einnig að fá sársaukaþolsmælingu verða beðnir um að skrá sig á vefsíðu ÞR (rannsokn.is/verkir) svo starfsfólk ÞR geti haft samband og boðið þeim tíma sem hentar.
Hverjir bera ábyrgð á rannsókninni?
Ábyrgðamaður rannsóknar á erfðum verkja gagnavart samskiptum við þátttakendur er Arnór Víkingsson, sérfræðingur í gigtlækningum þar á meðal vefjagigt
Ábyrgðamaður vísindalegrar framkvæmdar rannsóknarinnar og Lífsýnasafns Íslenskrar erfðagreiningar er Kári Stefánsson, sérfræðingur í taugalækningum og forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar.